Amor og dómarinn

eftir

Walter Laufenberg.

Íslensk þýðing:

Ingibjörg Hjartardóttir og

Myriam Dalstein

Í sex klukkustundir hefur maðurinn verið á hlaupum meðfram ströndinni og fótspor eftir fótspor stimplast  í mannlausa fjöruna í Toskana. Í sex klukkustundir hefur hann hrópað á Philipe. Köll hans blandast malarkliðnum og ölduskvaldrinu: „Philipe!” Klukkustundirnar undir þungri júlísólinni verða að dögum og þvinga höfuð hans niður svo hann minnir á stoltan hest sem hefur verið beislaður of þröngu beisli, þær leggjast með öllum sínum þunga á bakpokann hans og síga í axlirnar til skiptis, hanga í skónum sem sogast ofan í sandinn og vilja fá að vera þar í friði, þrá ekkert annað en hvíld og eilífan svefn. Hann rykkir í – einu sinni, tvisvar – rífur sig lausan og heldur berfættur áfram.

„Philipe, Philipe!” Skrælnaðar varirnar má út köll hans. Aðeins óskýrir sérhljóðarnir úr hásri, dvínandi röddinni veltast eftir ströndinni.

Hann einblínir út á hafið. Út í bláinn. Nú ætti að sjást í seglin, latneska seglið í háa mastrinu og bogna seglið, sem er þó ekki eins bogið og hann sjálfur, þar sem hann hleypur eftir ströndinni. Með saltslikju sjávarvindsins í augunum sýnist honum sem hann sjái skútuna og hvíta seglið reigja sig á móti vindinum. Augnabliki síðar er það horfið en birtist svo á ný en hverfur síðan aftur. Djöfulgangur. Augun í mér, hvað er að augunum? Augunum sem allir dá, því þau sjá það sem aðrir sjá ekki. Nú sjá þau ekkert.

“Philipe, Philipe!”

En vindurinn blæs af hafi og feykir köllum hans eftir ströndinni. Inn í klettaskorur og áfram upp runnanna og skipstjóri skútunnar sem er ekki til mun aldrei heyra í honum. En drengurinn heyrir vel til hans og varðveitir hljóðið í hlustum sínum og fylgir honum eftir með augunum. Þessum prúðbúna manni með poka um öxl og korða við hlið. En hann er skólaus. Og hreyfingar hans verða stöðugt hægari. Í hæfilegri fjarlægð skýst hálfnakti drengurinn á milli runnanna og fylgist með manninum sem veitir engu í kringum sig eftirtekt en dregst áfram undir skáhallri sól, starir út á sjóinn, beint inn í skært endurvarp sólargeislanna á hafsfletinum.

Dómarinn: „Já, já, fávís forvitni og flækingsgangur  hefur aldrei talist heiðarlegt athæfi.”

„Philipe, Philipe!”

Drengurinn hlustar á deyjandi köll hans og horfir á máttfara hreyfingar hans og veitir því athygli að þótt þessi bogni maður sé aðframkominn skilur hann ekki við sig pokann. Þá grípur hann tækifærið.

„Já, ég er Philipe. Hvað vilt þú mér?” Ókunnugi maðurinn hafði ekki orðið var við drenginn sem kom hlaupandi til hans úr áttinni frá klettunum. Ekki fyrr en hann stendur allt í einu fyrir framan hann. Hann heldur að hann sjái ofsjónir, stirðnar upp, sígur svo máttlaus niður, og korðinn stingst í sandinn. Hann hvíslar: “Philipe, Philipe.”

„Já, hvað viltu mér?” Drengurinn beygir sig niður og horfir í andlit hins ókunnuga og reynir að meta stöðuna. Hann er eldri en ég, miklu eldri, hugsar hann með sér og kjarkur hans vex. Maður hátt á fertusaldri er gamall maður í augum drengs, það þýðir hættulaus, auk þess er hann að niðurlotum kominn og ruglaður. Flækingspilturinn róast. En þessi tryllingslegu augu undir svörtu bogadregnum brúnunum, þetta úfna hár og stríða yfirvaraskegg og hökutoppur. Og aftur endurtekur hann: „Ég er Philipe – hvað vilt þú mér?”

„Ekki þér. – Nei, og þó. – Þér. Komdu, sestu hérna hjá mér.”

„Á ég að halda á pokanum fyrir þig? Fyrir smápening skal ég hjálpa þér áfram.”

„Nei, nei, nei. Ókunnugi maðurinn rígheldur í pokann eins og um fjársjóð væri að ræða.

„Láttu mig hafa hann!” segir drengurinn ,,hann er alltof þungur fyrir þig.”

„Nei, hann er alls ekki þungur.” Pokinn í fanginu eins og  ástmey.

„Og sólin er heit,” segir drengurinn.

„Sólin? – Nei, Philipe! Hvar er Philipe?”

Drengurinn þrífur ákveðinn í handlegg hins ókunnuga og dregur hann á fætur. Pokinn dettur á jörðina. Maðurinn verður þess ekki var, heldur hallar sér uppgefinn að drengnum með andlitið upp að naktri bringu hans, þrístir sér að honum og tautar: „Philipe, Philipe!”

„Burt úr sólinni! Komdu í skuggann maður, inn í kjarrið.”

Dómarinn: „Þetta er alveg ljóst. Sá sem gerir öðrum ósiðlegt tilboð verður að gera sér grein fyrir því að hann er þá um leið búinn að fremja brot. Hefur gert sig sekan um óeðli.”

Ákafur dregur drengurinn þann ókunnuga með sér eftir ströndinni. Hugdettan að hátt þétt kjarrið veiti skjól er engin fjarstæða, en hún býður jafnframt upp á ósiðleg skyndikynni. Og þar að auki getur drengurinn auðveldlega varið sig. Þegar hinn ókunnugi þreifar á honum, þrístir honum að sér, smjattandi þurrum munni, hrindir drengurinn honum harkalega á jörðina. Berfættur sparkar hann í höndina sem ætlar að grípa til korðans. Meira þarf ekki. Hinn liggjandi maður ranghvolfir augunum og fálmar bjargarlaus út í loftið og ruglar eitthvað um að mála.

„Ég verð að mála þig, Amor, ég geri þig ódauðlegan. Þetta englahörund þitt og þessa djöfullegu svörtu lokka, þú ert Amor, þú ert í einu himinn og helvíti. Í því rífur hann lendaskýluna af drengnum.

,,Hei, hei, þú ert brjálaður!”

„Vertu rólegur Amor, ég verð að sjá þig svona. Þú þarft ekki að skammast þín gagnvart mér. Ég er málari, ég er hinn mikli málari, sá frægasti á allri Ítalíu!”

„Það geta allir sagt,” segir drengurinn. Hann vefur skýlunni aftur um sig.

„Farðu með mér til borgarinnar. Ég þarf vinnustofu til að mála. Strax, fljótur! Ég verð að mála þig, Amor. Sem vörð sólarinnar.”

Maðurinn lokar augunum og fálmandi hendurnar falla. Óskiljanlegt ruglið í honum hættir. Hann hverfur í djúpt meðvitundarleysi. Drengurinn hrifsar pokann undan manninum og gramsar í honum í flýti. Hann tekur upp áttstrendan silfurkross, ber hann upp við sólina svo hann blindast. Málningatúba og penslar, eitthvað af fötum og tveir strigastrangar. Einnig peningapungur með smáaurum í. En hins vegar er korðinn verðmætur, hugsar drengurinn um leið og hann losar vopnið frá beltinu. Hér þekkir hann enginn og ef ég sel fötin hans hlýt ég að fá eitthvað fyrir þau. Heldrimanna föt.

Ókunnugi maðurinn opnar augun. Hann sér eigur sínar í höndum piltsins. En honum virðist standa á sama. „Komdu með mér á vinnustofuna mína,” hvíslar hann veikum rómi. Pilturinn hefur enn ekki náð að gramsa til botns í pokanum, heldur á honum, óákveðinn hvað gera skuli. „Einskisvirði!” heyrir hann manninn segja. „Ég vil mála þig, Amor. Málverk eftir mig og þú verður ríkur maður.”

Dómarinn: „Ó, vei hégómanum og græðginni og öllu því sem við höldum að geri okkur meiri, en færir okkur ekki annað en minnkun og smán.”

„Ertu raunverulega málari? – Og kannski frægur?” Með korðann í höndunum hefur hann ekkert að óttast, gefur sér góðan tíma og gaumgæfir manninn sem hafði vaknað svona óvænt aftur til lífsins. Hann rís upp til hálfs og er óðamála:

„Já, ég er málari, ég er frægasti málari á Ítalíu. Ég er Michelangelo da Merisi, sem allir kalla Caravaggio, af því að þar er ég fæddur. Í Caravaggio við Milanó, þú veist. Ég var að koma frá Napólí. Þegar ég kom hér að landi varð ég handtekinn. En það voru mistök. Bölvaðir aularnir. En þeir slepptu mér. Enginn fangelsar mann eins og mig. Möltubúar gátu ekki einu sinni haldið mér í steinparadísinni sinni. Metra þykkir veggir, kaldur steinn, ísköld hjörtu og yfirfullar gullkistur, en ég strauk frá þeim. Ég er frjáls, frjáls, frjáls!!!”

Á sama andartaki verða augu hans óskýr. Hann hverfur í álíka ástand og áður, milli lífs og dauða, sem kemur í veg fyrir að jafnvel hið versta illmenni geri honum mein. Til allrar hamingju eru augu hans lokuð. Piltinum vex þor. Hann leggur höndina á enni hins ókunnuga en kippir henni strax aftur að sér. Hiti. Maðurinn er veikur. Alvarlega veikur. Hann á ekki langt eftir. Hann er að deyja. Ég vil ekki blanda mér í þetta. Það var ekki ég, ég drap hann ekki. Hann dregur hálsklút upp úr pokanum, vefur honum utan um korðann, áttstrenda krossinn og peningapunginn, klemmir vöndulinn undir handlegginn og ætlar að flýta sér í burtu en þá verður honum litið á deyjandi manninn sem í því opnar sóttheit augun og horfir á hann þannig að hann verður bergnuminn.

Uppglennt augu og munnur og aftur þessi hása rödd sem ruglar: „Ég er riddari Möltubúa, í höll stórmeistaranna í Veletta, þú veist, þar sem Albergo, hin ítalska tunga ríkir, þar á ég heima. Ég hef málað stórmeistara Alof Wignacourt í fullum herskrúða. Í búningi fyrirrennara síns. Fyrir kirkjuna okkar málaði ég Jóhannes skírara þegar verið var að hálshöggva hann. Þú getur farið þangað og séð hann. Hvernig blóðið streymir úr strjúpanum á Jóhannesi skírara yfir klefagólfið, blóðið sem ég áletraði með. Fecit Michelangelo, skrifaði ég með blóðinu. Þá urðu þeir stoltir af nýja riddaranum sínum. Sjálfir Regluriddararnir. Og þeir hefðu gert mig að stórmeistara sínum, mig, það var enginn betri, ég átti stuðning þeirra allra, allra þeirra sem töluðu ítölsku, og flestra hinna líka. Þeir hétu mér því. Ætluðu að setja hinum stórmeistaranum úrslitakosti. Neyða hann til að draga sig í hlé sökum vanhæfni. En þá sveik Fransmaður allar mínar ráðagerðir. Fangelsið í  Fort St. Angelo. Ég var ásakaður um landráð. En vinir mínir frelsuðu mig. Hvar er Philipe? Hvar er skútan hans. Ég verð að fara, ég verð að fara but héðan. Ég verð að komast á skip. Sjálfur páfinn í Róm er á eftir mér.”

Dómarinn: „Og að lokum verður öllum það ljóst að hann er að blanda sér í mál ofar hans eigin stöðu, hann hefur hvorki rétt á því né er til þess hæfur.”

Maðurinn sígur aftur saman. Nýtt hitakóf og óskýrt óráðshjal. Starandi augu hans halda í drenginn. Hann kemst ekki úr sporunum með vöndulinn undir handleggnum. Gagntekinn. En líka, líka vegna þess að hann vonar að maðurinn komist aftur á fætur. Að hann nái heilsu á ný. Og máli af honum málverk. Hvað kallaði hann mig? Amor, Amor sagði hann.

Dómarinn: „Ó, Vanitas vanitatis!”

Drengurinn tekur tusku upp úr pokanum, hleypur niður að sjónum, bleytir hana,  kemur með hana aftur til baka og leggur hana rennblauta á enni hins sjúka. Þá rís maðurinn upp við dogg og æpir: „Ég vil ekki deyja, nei, ég vil ekki deyja!”

„Þú ert ekki að deyja, maður, þú ert bara með svolítinn hita. Þú varst of lengi undir sólinn. Það er allt og sumt.”

„Ha,” hann rekur upp tryllingslegan hlátur. „Smá hita, segirðu. Mér er kalt, drengur, skelfilega kalt. Breiddu eitthvað yfir mig.” Drengurinn hlýðir eins og hann hafi aldrei óskað sér neins annars en að hjúkra sjúkum. „Þetta er lokastigið,” korrar maðurinn, „mýrarkalda, sem herjar nú á mig aftur. Þetta eru endalokin.” Hann gefur hjúkrara sínum ekki færi á að  mótmæla. „Ég veit að ég er að deyja, ég mun deyja. En ég hefði svo gjarnan viljað mála þig, Amor.”

Nú hefur drengurinn tvöfalda ástæðu til þess að yfirgefa manninn sem húkir þarna á jörðinni við fætur hans. Ekkert málverk, og svo þessi sjúkdómur. Hann flýr á bak við runna eins og hann haldi að hann muni verja sig.

Dómarinn: „Eiginhagsmunahyggjan dregur hann að fársjúkum manni á flótta. En samt sem áður er smithræðslan ekki nógu sterk til þess að hann geri það eina rétta, nefnilega að kalla á vörð laganna Það er sá kross sem litli maðurinn burðast með, að hafa meiri frumkennd en réttlætistkennd.”

„Komdu nær, heimskingi, vertu ekki hræddur, ég þarf að segja þér svolítið!” Með miklum erfiðismunum hvíslar hann úr þriggja, fjögurra faðma fjarlægð. ,,Ég skal gefa þér allt sem ég á, ungi vinur, ef þú gerir mér greiða.” Hann bíður ekki eftir svari, heldur áfram hásri röddu eins og deyjandi maður sem hefur engu að tapa nema þræðinum í allra síðastu hugsununum: ,,Ég er ekki hræddur við dauðann, ég hef málað marga látna. En skelfilegastur er óttinn við að vera kviksettur. Hvernig get ég verið viss um hvort ég sé dauður, þegar einhver finnur mig hér og segir: Hann er dauður.”

„Dauður er dauður.”

„Nei, nei, vinur minn, þar er alrangt. Að liggja í kistunni undir þungu fargi moldarinnar og sótthitinn hverfur og ég opna augun og sé ekkert nema myrkrið í kringum mig. Ég get hrópað eins lengi og ég mig langar til eða á meðan súrefnið endist. Enginn mun heyra til mín mér til bjargar og allt er…”

„Hættu þessu bulli, maður!”

„Hefurðu aldrei heyrt, Amor, að þeir dauðu lifi áfram í kistunni og deyi síðan í eigin gröf? Hefurðu ekki heyrt um ungu konuna sem dó rétt áður en hún fæddi barnið sitt og var síðan grafin? Löngu síðar þegar gröfin var opnuð, fannst örlítil beinagrind milli fóta hennar, barnið sem hún eignaðist í gröfinni. Hún virtist dáin en var þá aðeins í dauðadái. Það gerist. Reyndar oftar en fólk heldur. En það má ekki gerast í mínu tilfelli.” Hinn sjúki sest aftur upp. Korrið veikara og áreynslumeira: ,,Ég vil vera viss um að ég sé dáinn þegar ég er dáinn. Um leið og ég hef tekið síðasta andvarpið og glenni upp augun til himins, um leið, vinur minn, skaltu taka korðann minn og stinga honum í hjartastað. Hérna, einmitt hér verður þú að stinga. Lofarðu mér því?”

Dómarinn: „Hver heldurðu að þú sért, litli maður, sem þykist þess umkominn að svíkja sjálfan dauðan? Ó, þetta vanhelga sjálfsofmat!”

Hinn sjúki rífur blúnduskyrtuna sína í sundur rétt ofan við hjartastað og rispar með nöglunum blóðugan kross á hörundið. „Lofarðu mér því?”

Þegar drengurinn kinkar kolli heldur hann áfram: „Þú ert sannur vinur. Þess vegna verður allt sem ég á þitt, Philipe. Einnig báðir myndastrangarnir þarna –”

Allt í einu opnast munnurinn. Eins og hlutverki hans sé lokið. Einnig augun. Hann liggur kyrr, eins og hann lá áður. Armar og fætur til hliðar eins og þeir tilheyri honum ekki lengur.

Þá tekur drengurinn korðann úr vöndlinum heldur honum fast í hægri hendi, hefur hann eldsnöggt á loft svo það syngur í honum og rekur hann síðan í brjóst dána mannsins, nákvæmlega þar sem blæðandi krossinn væntir hans. Hann dregur hann úr og safnar í skyndi saman eigunum sem nú eru hans og hleypur að því búnu heim.

Þangað sem hann næsta dag var sóttur af þjónum réttlætisins og stungið í fangelsi. Til lífstíðar, eftirlætis ljúflingur fangavarðanna, sem fullnægðu hvötum sínum á honum.

Amor með hvíta englahörundið og djöfulssvart hárið, himinn og helvíti í einu.


Dieser Beitrag wurde unter Kurzgeschichten veröffentlicht. Setze ein Lesezeichen auf den Permalink.